Góður liðsandi færðu Vopnfirðingum Jafningjaverðlaun LEGO-keppninnar!

Keppnislið Vopnafjarðarskóla sýndi góðan liðsanda og hlaut Jafningjaverðlaun á nýafstaðinni LEGO-keppni grunnskóla landsins. Keppnin, sem fagnaði 20 ára afmæli sínu á árinu, fór fram í Háskólabíói laugardaginn 8. nóv.

Alls tóku um 200 keppendur úr 19 skólum þátt í keppninni og reyndu með sér á sviði vísinda, tækni og nýsköpunar. Þemað í ár var „Uppgröftur“, þar sem keppendur forrituðu LEGO-vélmenni til að leysa krefjandi þrautir á sérstakri braut.

Við erum ótrúlega stolt af okkar keppnisliði sem stóð sig með mikilli prýði. Vopnafjarðarskóli hefur áður átt góðu gengi að fagna í keppninni en lið skólans tók einmitt þátt í sjálfri heimsmeistarakeppninni í Bandaríkjunum síðastliðið vor.