Stjórnskipulag

Við grunnskóla skal vera skólastjóri sem er forstöðumaður grunnskóla, stjórnar honum, veitir faglega forustu og ber ábyrgð á starfi skólans gagnvart sveitarstjórn. Skólastjóri stuðlar að samstarfi allra aðila skólasamfélagsins. Skólastjóri boðar til kennarafunda svo oft sem þurfa þykir á starfstíma grunnskóla. Kennarafundi skulu sækja kennarar og aðrir sérfræðingar skólans. Skólastjóri boðar til starfsmannafunda svo oft sem þurfa þykir. (Úr 7. grein grunnskólalaga 2008)

Skólastjóri gerir tillögur til fræðslunefndar um aðrar stjórnunarstöður með tilliti til þarfa skólans. Skólastjóri ákveður verksvið aðstoðarskólastjóra og deildarstjóra sérkennslu og eru þeir staðgenglar skólastjóra.

Kennarar gegna lykilhlutverki í öllu skólastarfi. Á þeim hvílir ekki aðeins sú skylda að miðla þekkingu til nemenda heldur einnig að veita nemendum tækifæri til að afla sér þekkingar og leikni, örva starfsgleði þeirra og frjóa hugsun. Kennarar leiðbeina nemendum í námi og mati á því og vinna að því að þeir tileinki sér heilbrigðar lífsvenjur. Þeir leitast við að skapa góðan bekkjaranda, réttlátar vinnu og umgengnisreglur og hvetjandi námsumhverfi. Kennarar skólans gera kröfur jafnt til sín og nemenda og stuðla að góðri líðan nemenda í skólanum.

Umsjónarkennarar fylgjast öðrum fremur með námi og þroska allra nemenda sem þeir hafa umsjón með. Í þessu felst m.a. að leiðbeina nemendum í námi og mati á því. Umsjónarkennarar eiga að hlutast til um andlega og líkamlega velferð nemenda sinna og hafa samvinnu við foreldra/forráðamenn eftir þörfum. Umsjónarkennarar leitast við að skapa góðan bekkjaranda, réttlátar vinnu- og umgengnisreglur og hvetjandi námsumhverfi. Umsjónarkennarar og fagkennarar samræma námsefni á milli bekkjardeilda.

Umsjónarkennarar hafa umsjón með undirbúningi og framkvæmd bekkjarkvölda, skemmtiatriða á árshátíð o.fl. Umsjónarkennarar bera ábyrgð á því að færa reglulega nauðsynlegar upplýsingar í dagbækur, nemendaskrár, einkunnabækur o.fl eftir samkomulagi við skólastjóra. 

Annað starfsfólk sem að skólastarfinu kemur gegnir mikilvægu hlutverki til að markmið skólastarfsins nái fram að ganga. Hver starfsmaður hefur ákveðið starfsvið og saman mynda þeir eina heild: Skólaliðar, stuðningsfulltrúar, forfallakennarar, matráðar, starfsmenn íþróttahúss, bókasafnsvörður og skólabílstjórar.

Skipurit