Skólareglur Vopnafjarðarskóla

Megingildi og einkunnarorð Vopnafjarðarskóla eru virðing, ábyrgð og vellíðan sem eiga að vera leiðarljós starfsins.

Til að öllum líði vel og námsárangur verði góður gilda eftirfarandi reglur í Vopnafjarðarskóla. Nám er vinna nemenda og til þess að sú vinna skili árangri ber sérhverjum nemanda að taka tillit til annarra og virða vinnufrið í kennslustundum. Nemendum ber að standa við þær námsáætlanir sem þeim hafa verið settar og mæta með öll gögn og áhöld sem til er ætlast. Nemendur mæta stundvíslega í skólann með þau gögn sem nota skal hvern dag vel undirbúin undir kennslustundir.

Nemendur í 1. - 7. bekk fara út í löngu frímínútum en ekki út af skólalóð á skólatíma, aðrir biðja um leyfi kennara eða skólaliða þurfi þeir að fara eitthvað. Snjókast í frímínútum er óæskilegt vegna slysahættu. Nemendur eiga skilyrðislaust að hafa hjálm á höfði við notkun á reiðhjólum, vélknúnum ökutækjum, hlaupahjólum, línuskautum, hjólaskóm og hjólabrettum. Það er á ábyrgð nemenda og foreldra að nemendur noti öryggishjálma. Óheimilt er að vera á reiðhjólum eða vélknúnum ökutækjum á leiksvæði skólans.

Óæskilegt er að koma með peninga í skólann að þarflausu og eins að skilja verðmæti eftir í fötum á göngum eða í búningsklefum. Skólinn getur ekki tekið ábyrgð á persónulegum munum nemenda.

Nemendur ganga frá yfirhöfnum og útiskóm á viðeigandi stað og geymum skólatöskur á snögum. 

Notkun vímuefna er óheimil í skólanum, á skólalóðinni eða hvar sem nemendur eru á vegum skólans.

Notkun myndavéla, snjallsíma og annarra tækja er ekki heimiluð í skólanum.

Snjallúr skulu ávalt vera geymd í skólatösku á skólatíma. Þá ber skólinn enga ábyrgð á tækjum sem eru í eigu nemenda.         
Skólareglur Vopnafjarðarskóla gilda hvar sem nemendur eru á vegum skólans.