Skólareglur Vopnafjarðarskóla

Skóli er samfélag nemenda og starfsfólks.  
Til að öllum líði vel og námsárangur verði góður gilda eftirfarandi reglur í Vopnafjarðarskóla.

 

Nám 
Til að nemandi skili árangri ber sérhverjum nemanda að taka tillit til annarra og virða vinnufrið í kennslustundum. Nemendum ber að standa við þær námsáætlanir sem þeim hafa verið settar og mæta með öll gögn og áhöld sem til er ætlast.

 

Mætingar

Við mætum stundvíslega í skólann með þau gögn sem nota skal hvern dag, vel undirbúin undir kennslustundir. Forföll á að tilkynna af forráðamanni nemenda annars  verður litið svo á að um óheimila fjarvist sé  að ræða. Leyfi í 1-2 daga geta forráðamenn sótt um til umsjónarkennara. Leyfi í 3 daga eða lengur þarf að sækja um skriflega til skólastjórnenda. Forráðamönnum ber að sjá til þess að nemandi vinni upp það sem hann missir úr námi.

Samskipti  
Samskipti okkar í Vopnafjarðarskóla skulu grundvallast á gagnkvæmri virðingu, kurteisi og tillitssemi við alla og nemendum ber að fara að fyrirmælum starfsfólks.

Umgengni  
Við göngum vel um skólann jafnt innan sem utan dyra. Sýnum tillitssemi á göngum skólans og virðum vinnufrið annarra. Okkur ber að ganga vel um eigur skólans og öll gögn sem eru afhent.

Tæki
Notkun  síma, spjaldtölva og annarra tækja er ekki heimiluð með sérstöku leyfi kennara.  Þá ber skólinn enga ábyrgð á tækjum sem eru í eigu nemenda.

Nesti og hollusta  
Við borðum hollt og gott nesti og fáum okkur ekki gos og sætindi í skólanum nema á skólaskemmtunum. Þá drekkum við og borðum eingöngu  í nestistímum. Þeir sem eru á neðri hæðinni, á yngsta stigi, drekka einungis vatn og holla drykki í skólanum. 

Frímínútur og skólalóð  
Þeir sem eru í 1.-7. bekk fara út í löngu frímínútum en ekki út af skólalóð á skólatíma, aðrir biðja um leyfi kennara eða skólaliða þurfi þeir nauðsynlega að fara eitthvað. Snjókast í frímínútum er óæskilegt vegna slysahættu. Nemendur eiga skilyrðislaust að hafa hjálm á höfði við notkun á reiðhjólum, vélknúnum ökutækjum, hlaupahjólum, línuskautum, hjólaskóm og hjólabrettum • Það er á ábyrgð nemenda og foreldra að nemendur noti öryggishjálma • Óheimilt er að vera á reiðhjólum eða vélknúnum ökutækjum á leiksvæði skólans.

 

Verðmæti, skór og yfirhafnir 

Óæskilegt er að koma með peninga í skólann að þarflausu og eins að skilja verðmæti eftir í fötum á göngum eða í búningsklefum.  Skólinn getur ekki tekið ábyrgð á persónulegum munum nemenda.  Gengið er  frá yfirhöfnum og útiskóm á viðeigandi stað og skólatöskur settar á snaga.  Mikilvægt er að fatnaður sé vel merktur.

Vímuefni 
Notkun vímuefna er óheimil í skólanum, á skólalóðinni eða hvar sem nemendur eru á vegum skólans.

Bekkjarsamningur  
Umsjónarkennurum einstakra bekkja er frjálst að gera samning við nemendur um framkomu og annað í skólastofunni eins og umgengni og almenn samskipti. Slíkur samningur er þá að sjálfsögðu gerður í takt við þau viðmið, gildi og reglur sem eru í skólanum.

Ástundun 
Við stundum námið samviskusamlega, mætum vel og stundvíslega og sinnum heimanámi vel.

 

Skólareglur Vopnafjarðarskóla gilda hvar sem nemendur eru á vegum skólans.


Vinnureglur og viðurlög við brotum á skólareglum

Áhersla er lögð á einstaklingslega meðferð agabrota og mismunandi viðbrögð og viðurlög eftir eðli máls og mati á heildaraðstæðum nemenda hverju sinni.           

Ef nemandi veldur verulegri truflun í kennslustund og lætur sér ekki segjast við áminningu kennara er heimilt að vísa nemandanum úr tíma og getur gæslufólk haft umsjón með nemandanum þar til kennari hefur rætt við hann. Kennarinn skráir brotið, lætur umsjónarkennarann vita og ræðir við foreldra.

 Nemendur eru ábyrgir fyrir því tjóni sem þeir kunna að valda á eignum skóla, starfsfólks eða skólafélaga sinna. Týni nemandi bók sem skólinn lánar honum eða valdi á henni skemmdum getur skólinn krafist þess að viðkomandi bæti tjónið.

Mæti nemandi með skaðlega eða truflandi hluti í skólann t.d.  farsíma, tölvuleiki, myndavél eða önnur tæki er trufla kennslustund eða geta haft slysahættu í för með sér fær nemandinn aðvörun en við endurtekið brot er heimilt að viðkomandi tæki sé gert upptækt og aðeins  foreldrar eða forráðamenn fá það afhent.

Gerist nemandi sekur um alvarlegt brot á skólareglum eða lögum almennt hvar sem er á vegum skólans er heimilt að senda viðkomandi heim á kostnað forráðamanna sinna.

Hafi umsjónarkennari  vísað málum nemanda til skólastjóra vegna brota á skólareglum er það ákvörðun skólastjórnar, í samráði við umsjónarkennara, hvort viðkomandi nemandi fær heimild til þátttöku í ferðum á vegum skólans.

Endurtekin eða gróf brot á skólareglum getur valdið því að nemanda sé umsvifalaust vísað til skólastjóra sem tekur ákvörðun um framhald málsins. Hafa skal samband við foreldra eins fljótt og auðið er. Þá getur komið til greina að foreldrar sæki nemanda

 

Ferill agabrota

 Brot á skólareglum
Viðkomandi starfsmaður áminnir nemanda. Umsjónarkennari er látinn vita, hann skráir brotið, talar við nemandann og tilkynnir það til foreldra.

Endurtekin brot
Umsjónarkennari (og þeir sem hann kallar til) fundar með nemanda og foreldrum hans. Gert er samkomulag um leiðir til úrbóta.

Enn í sama farinu
Málinu vísað til skólastjóra sem fundar með nemanda. Leiðir til úrbóta endurskoðaðar og ný áætlun gerð um framhald.

Engin lausn í sjónmáli
Skólastjóri tekur málið aftur til meðferðar og foreldrar kallaðir til viðtals ásamt nemanda.  Áætlun skal gerð um aðgerðir og nemanda og foreldrum hans gerð grein fyrir þeim. Aðgerðir geta m.a. falist í vísun til sérfræðiþjónustu, sérúrræðum innan skólans eða tímabundinni brottvísun.

Ef allt um þrýtur
Nemanda vísað úr skóla og málið sent skólanefnd til úrlausnar.

 

Nemenda og foreldrum/forráðamönnum hans skal gefinn kostur á að tjá sig ef ítrekað er að hegðun nemanda fundið og alltaf við brotum á skólareglum.

Foreldrum/forráðamönnum skal ætíð gerð grein fyrir brotum barna sinna á skólareglum og beitingu viðurlaga.

Ávallt skal hafa samstarf við foreldra/forráðamenn nemanda um úrlausn máls.