Skólastefna

Stefna Vopnafjarðarskóla

Í grunnskólalögum er kveðið á um hver eigi að vera megin hlutverk grunnskólans.                                                                                Sérhver skóli hefur þessi hlutverk að leiðarljósi og setur sér stefnu og markmið út frá því. Þó að starfsfólk og aðrir í skólasamfélaginu séu vel meðvitaðir um þetta hlutverk er alltaf gagnlegt að rifja það upp.

Skólinn á í samvinnu við heimilin að stuðla að alhliða þroska nemenda og þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi.                        Skólastarfið á að mótast af umburðarlyndi og kærleika, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi. Eins á skólinn að leitast við að starfið mótist af stöðu og þörfum nemenda og stuðla að alhliða þroska, velferð og menntun hvers og eins. Grunnskóli á að stuðla að víðsýni hjá nemendum og efla færni þeirra í íslensku máli, skilning þeirra á íslensku samfélagi, sögu þess og sérkennum, högum fólks og á skyldum einstaklingsins við samfélagið, umhverfið og umheiminn.

Nemendum skal veitt tækifæri til að nýta sköpunarkraft sinn og að afla sér þekkingar og leikni í stöðugri viðleitni til menntunar og þroska.

Skólastarfið skal leggja grundvöll að frumkvæði og sjálfstæðri hugsun nemenda og þjálfa hæfni þeirra til samstarfs við aðra.                Þá bera  foreldrar ábyrgð á námi barna sinna og eiga að fylgjast með námsframvindu þeirra í samvinnu við börnin og kennara þeirra. Þeir eiga að hafa samráð við skólann um skólagöngu barna sinna, fylgjast með og stuðla að því að börnin mæti úthvíld í skólann og fylgi skólareglum. Þeir eiga að fá tækifæri til að taka þátt í námi barnsins, svo og í skólastarfinu almennt.

Skóli án aðgreiningar

Vopnafjarðarskóli starfar samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla.                                                                                                                        Allir nemendur eiga jafnan rétt til náms og þroska og að fá sem bestan stuðning og aðbúnað til að ná árangri og líða vel.                          Í daglegu skólastarfi er leitast við að koma til móts við þarfir hvers og eins óháð námslegri getu eða félagsfærni.                                  Hlutverk skólans er að koma til móts við þarfir hvers nemanda og veita honum tækifæri til að móta viðhorf og tilfinningar og auka færni sína og hæfni til að taka þátt í og hafa áhrif í samfélaginu.                                                                                                                            Í daglegu skólastarfi er reynt að efla félagsfærni hvers nemanda og gefa honum tækifæri til að læra og þroskast.                                Þetta er gert með því að bjóða upp á fjölbreytta kennsluhætti, námsvænar aðstæður, gott umhverfi og að hlúa að  skólasamfélagi þar sem virðing, ábyrgð og vellíðan ríkir.

 

 Virðing, ábyrgð og vellíðan eru grunngildi skólans                                                                                                                                               Auk þess fylgja önnur mikilvæg gildi starfinu eins og umburðarlyndi, samvinna, kurteisi, agi og stundvísi.                                             Nám og velferð nemenda skal ætíð haft að leiðarljósi.                                                                                                                                           Í daglegu starfi er leitast við að endurspegla menntun þar sem fléttað er saman inntaki námsins og fjölbreyttum kennsluháttum sem   taka mið af ólíkum einstaklingum.

Lögð er áhersla á að skólinn sé aðlaðandi vinnustaður þar sem nemendum og starfsmönnum líði vel í leik og starfi.                             Lögð er áhersla á jákvætt viðmót og jákvæðan skólabrag.                                                                                                                         Skólinn er Olweusarskóli og heilsueflandi skóli sem styður vel við uppeldisleg markmið skólans.

Grunnskóli í samfélagi eins og Vopnafirði hefur ekki aðeins það hlutverk að sinna náms- og uppeldislegu hlutverki heldur eru önnur óskráð viðmið sem hafa fylgt tilurð skóla í samfélaginu. Þess vegna hefur Vopnafjarðarskóli sett sér markmið um stöðu og ímynd skólans í samfélaginu með eftirfarandi áherslum.

Að skapa sér jákvæða og trausta ímynd, að vera í góðum tengslum við aðila sem vinna að æskulýðs- og menningarmálum, að vera í góðu samstarfi við aðra skóla, að vera í góðum tengslum við atvinnulífið.

Skólabragur

Í Vopnafjarðarskóla er áhersla lögð á jákvæð samskipti þar sem gagnkvæm virðing, ábyrgð og vellíðan allra er höfð að leiðarljósi. Vopnafjarðarskóli byggir á bekkjakerfi þar sem hver bekkur eða hópur er heimavettvangur nemandans.

Skólasamfélagið er rótgróið þorps- og sveitarsamfélag þar sem nálægðin er mikil. Árgangar eru fámennir og því mikil samkennsla árganga sem ræðst einnig af námsgreinum, samsetningu árganga og faglegu mati.

Starfsmenn og nemendur skólans, þekking þeirra og hæfni, eru megin auðlind skólans. Hana skapa þeir með jákvæðu hugarfari, metnaði og starfsgleði.

Allir nemendur læra  og taka  framförum á eigin forsendum og ábyrgð.

Hver nemandi er sérstakur og það á að endurspeglast í viðhorfum starfsmanna og störfum.

Leitað er leiða til að hver nemandi nái árangri og taki framförum í námi og viðmóti og beri ábyrgð í samræmi við aldur og þroska.

Lögð er áhersla á að nemendur geri sér grein fyrir eigin ábyrgð og í samræðum við nemendur er vakin athygli á óskráðum viðmiðum í framkomu og hegðun við að mynda jákvæðan skólabrag.

Í lífsleiknikennslu, bekkjarfundum og samtölum við nemendur er lögð áhersla á jákvæða sjálfsmynd nemenda og virðingu gagnvart samnemendum, starfsfólki og skólasamfélaginu í heild.

Ætlast er til góðrar umgengni af nemendum og þeir sýni kurteisi og góða framkomu.

Mikil áhersla er lögð á að traust ríki milli allra í skólanum og milli skóla og heimila.

Áhersla er lögð á að fylgjast vel með líðan og gengi hvers nemanda.

Hefðir og siðir í skólastarfinu, þar sem reglubundið skólastarf er brotið upp, eiga stóran þátt í að viðhalda og móta jákvæðan skólabrag.

Stjórnendur og starfsfólk leggja sig fram við að skapa jákvæðan starfsanda og skólabrag með það að markmiði að skilyrði til uppeldis og menntunar nemenda og almennrar velferðar þeirra sé sem best.

Innra starf skólans er metið reglulega með þátttöku starfsfólks, nemenda og foreldra. Í matsferlinu er leitað leiða til að matið nái til alls starfsins til að bæta skólastarfið.