Heilsugæsla

Skólahjúkrunarfræðingur Vopnafjarðarskóla er Steinunn Birna Aðalsteinsdóttir. Hún sinnir heilsugæslu í skólanum á vegum Heilbrigðisstofnunar Austurlands.

Viðtalstími í skólanum er alla þriðjudaga kl. 8:10-12
Sími: 470 3257;
Netfang: steinunnb@hsa.is 

Hlutverk skólahjúkrunarfræðings:

  • Veitir almenna heilsugæslu
  • Eftirlit með heilsufari
  • Heilbrigðishvatning
  • Forvarnarstarfsemi

Eftirlit með nemendum

Nauðsynlegt er að fá góðar upplýsingar um heilsufar barnanna þannig að hægt sé að sinna þeim sem best, sem eiga við vandamál að stríða.
Foreldrar eru hvattir til að hafa samband við skólahjúkrunarfræðing ef þeir vilja að sérstaklega sé fylgst með börnum þeirra eða til að koma einhverjum upplýsingum á framfæri.

Hollusta

Börn sem eru að vaxa og þroskast þurfa öðrum fremur holla og góða fæðu. Á morgnana hafa þau að jafnaði ekki borðað mat í um 12 klukkustundir og eru farin að ganga á orkuforða sinn. Því er nauðsynlegt að fá góðan morgunmat svo næg orka verði til að takast á við verkefni dagsins. Einnig eru nemendur hvattir til að hafa með sér hollt og gott nesti.

Tannheilsa

Fylgst er með því að hver nemandi sé með skráðan heimilistannlækni sem fylgir eftir reglubundnu eftirliti með tannheilsu barnanna. Jafnframt fer reglulega fram fræðsla er snýr að tannheilbrigði í skólanum.


Skólaskoðun

Almennar skimanir eru framkvæmdar í 1., 4., 7., og 9. bekk. Þá er framkvæmt sjónpróf og mæld hæð og þyngd. Þegar skimanir fara fram ræðir hjúkrunarfræðingurinn við nemendur um lífsstíl og líðan. Markmið þessara viðtala er að styrkja vitund nemenda um eigin lífsstíl og líðan. Eins að geta gripið til úrræða ef vart verður við vanlíðan eða áhyggjur. Grunnupplýsingar úr lífsstílsviðtali eru skráðar í rafræna sjúkraskrá skólaheilsugæslunnar ásamt niðustöðum skimunarprófa.


Bólusetningar

Bólusett er í 7. bekk við mislingum, hettusótt og rauðum hundum og stúlkur í 7.bekk fá tvær bólusetningar við HPV með a.m.k. 5 mánaða millibili. Bólusett er í 9. bekk við barnaveiki, stífkrampa, kíghósta og mænusótt. Ef líkur eru á að barn sé ekki að fullu bólusett þá eru foreldrar hvattir til að hafa samband við skólaheilsugæsluna. Það er á ábyrgð foreldra að láta bólusetja börn sín. Bólusetningar eru jafnframt skráðar í rafræna sjúkraskrá heilsugæslunnar.Heilbrigðisfræðsla 

Skipulögð heilbrigðisfræðsla er framkvæmd í öllum árgöngum og er áherslan að hvetja til heilbrigðra lífshátta. Byggt er á hugmyndafræðinni um 6-H heilsunnar sem er samstarfsverkefni heilsuverndar skólabarna og Lýðheilsustöðvar. Áherslur fræðslunnar eru Hollusta – Hvíld – Hreyfing – Hreinlæti – Hamingja - Hugrekki og kynheilbrigði. Eftir fræðslu fær barnið fréttabréf með sér heim. Þá gefst foreldrum kostur á að ræða við börnin um það sem þau lærðu og hvernig þau geti nýtt sér það í daglegu lífi.