Ferðafrásögn frá Hollandi

Erasmus+ferðin okkar til Hollands byrjaði fimmtudaginn 18. sept. þegar við keyrðum til Reykjavíkur. Við fengum ekki mikinn svefn þar sem við þurftum að vakna klukkan eitt um nóttina til að fara í flug. Þegar við komum til Hollands fórum við með lest frá Amsterdam til Den Haag og síðan í strætó til Roompot Kijkduin þar sem allir gistu. Við byrjuðum á að koma okkur fyrir og svo sýndi María okkur nágrennið. Á laugardeginum hittum við krakkana frá hinum löndunum, sem komu frá Grikklandi, Rúmeníu, Póllandi, Hollandi, Slóvakíu og Búlgaríu, og borðuðum með þeim hádegismat. Við fórum í leik sem heitir Icebreaker þar sem við vorum sett í alls konar hópa og áttum að kynnast öðrum krökkum og kynna þá fyrir hinum. Um kvöldið var kvöldvaka þar sem Pólland og Holland kynntu landið sitt og buðu okkur í mat. 

Á sunnudeginum mættum við í hádegismat hjá Rúmenum en allar þjóðirnar þurfa að bjóða hinum í hádegis- eða kvöldmat meðan á ferðinni stendur. Síðan var okkur skipt í hópa og við gerðum svokallað Cultural map sem var þannig að við skrifuðum hvað við eigum sameiginlegt og hvað ekki. Um kvöldið var komið að okkur, ásamt krökkunum frá Slóvakíu, að vera með kynningu og kvöldmat. Kynningin okkar gekk ljómandi vel og við buðum gestum upp á kjötsúpu, marengs, sviðasultu og harðfisk. Mánudagurinn var frídagur. Þá fórum við til Delft og skoðuðum okkur um, kíktum á þekkta staði, versluðum og skemmtum okkur vel.

Á þriðjudeginum fórum við á fyrirlestra um innflytjendamál í Hollandi og annars staðar í Evrópu. Einnig skoðuðum við Mauritshuis-safnið þar sem við sáum m.a. listaverkið Girl with the Pearl Earring. Um kvöldið var svo komið að Búlgurum og Grikkjum að halda kvöldvöku og bjóða okkur í mat. 

Á miðvikudeginum vöknuðum við snemma og fórum til Brussel í Belgíu og skoðuðum hús Evrópusambandsins. Þar fengum við kynningu á hlutverki Evrópusambandsins og einnig fórum við á málstofu þar sem rætt var um lýðræði og mannréttindi. 

Á fimmtudeginum gerðum við alls konar verkefni, fórum á tvo fyrirlestra þar sem m.a. var fjallað um stríðsglæpi. Um kvöldið kvöddum við alla, gengum frá í bústaðnum og gerðum okkur tilbúin að fara heim um morguninn. Föstudagurinn var heimferðardagur, við vorum veðurteppt í Reykjavík en komumst öll heil heim á laugardeginum.

Þetta var skemmtileg og lærdómsrík ferð og viljum við þakka öllum þeim sem styrktu okkur.

Erasmus+ ferðahópur Vopnafjarðarskóla,

Alexandra Björk, Arndís Þóra, Flosi, Guðjón Snær, Jódís Lilja, Kristófer Franz, Styrmir, Vignir og Viktor Páll